Við erum alltaf að leita að yfirburða fólki.

  Fyrirspurnir og umsóknir sendist á jobs@activitystream.com

  Yfirmaður Árangurstryggingar Viðskiptavina – Customer Success Director

  Starfið heyrir undir rekstrarstjóra og fellst í að tryggja ánægju viðskiptavina Activity Stream með forvirkum samskiptum sem ýta undir árangursríkari notkun vörunnar og að safna og miðla ábendingum notenda um úrbætur, breytingar og viðbætur við vöruna.

  Hugtakið “Customer Success” tengist náið rekstri hugbúnaðarveita þar sem fyrirtæki greiða mánaðargjald fyrir afnot af hugbúnaði sem lifir í skýinu. Til að viðhalda ánægju viðskiptavina og verjast brottfalli áskrifenda eru ýmsar leiðir farnar til að fylgjast með notkun og rýna með hvaða hætti má á framvirkan hátt auka árangur notenda með þvi t.d. að benda á nýja virkni eða virkni sem hann er ekki að nota, draga fram upplýsingar sem hann virðist ekki gera sér grein fyrir að séu á takteinum og óska eftir upplýsingum um upplifun hans af notkun vörunnar.

  Miðlun upplýsinga frá þeim sem stýra árangurstryggingu viðskiptavina er í gegnum tölvupóstsendingar, í gegnum samfélagsmiðla og með upplýsingagjöf inni í viðmóti vörunnar. Í mörgum tilfellum eru samskiptiin sjálfvirk, þau fara af stað þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Það getur bæði helgast af einhverju sem notandinn gerir eða gerir ekki. Sértækur búnaður er notaður til að skilgreina og mæla viðbrögð notenda við þessum samskiptum og sífellt bæta árangur með því að auka hæfni notenda.

  Activity Stream kerfið og tengdar sérlausnir fyrir iðngreinar á borð við miðasölu, smásölu, ferðaþjónustu, bankastarfsemi, og úrvinnslu gagna úr fjölbreyttu umhverfi Internets hlutanna, bjóðast fyrirtækjum í áskrift á netinu. Verkefni yfirmanns árangurstryggingar viðskiptavina er því mikilvægur hluti af rekstri fyrirtækisins. Tækifæri og um leið áskorun þess sem hreppir þessa stöðu fellst ekki hvað síst í því að verða einn fyrsti aðili á Íslandi til þess að móta, skilgreina og koma til framkvæmda metnaðarfullri áætlun á þessu sviði.

  Að sama skapi brúar staðan og hlutverk hennar bilið milli þarfa mikilvægustu áhrifavalda á framtíðarþróun vörunnar, viðskiptavinarins og fyrirtækisins sjálfs. Með því að rýna gögn um notkun, gerð kannana og markaðsgreininga verður til innlegg sem hefur mikla mikið að segja um stefnu Activity Stream í þróun, afhendingu og rekstri kerfisins og lausna sem byggja á því.

  Helstu verkefni:

  • Gerð, framkvæmd og eftirfylgni áætlunar um aukinn árangur viðskiptavina.
  • Að vera rödd viðskiptavina og standa vörð um hagsmuni þeirra í þróun vörunnar.
  • Skilgreining árangurstryggingar viðskiptavina og uppbygging þjónustu.
  • Framkvæmd og síðar eftirlit með aðstoð við notendur og farsælli úrlausn þeirra mála.

  Kjörið viðfangsefni fyrir fólk með ofvaxna þjónustulund og brennandi áhuga á árangri annara. Viðkomandi þarf að búa yfir ómótstæðilegum persónutöfrum, vera ósérhlífin(n), hafa framúrskarandi samskiptahæfileika, geta haft stjórn á krefjandi aðstæðum og nærast á því að gera alltaf aðeins meira. Enskukunnátta af sverustu sort er algjört skilyrði og dönskukunnátta mikill kostur. Umtalsverður hluti starfsins byggir á forvirkum aðgerðum og kallar á töluverðan skilning á sjálfvirkni.

  Umhverfi starfsins er mjög spennandi og býður, ef fram fer sem horfir, mikla möguleika til vaxtar.